Áður en blóm eru látin í vasa eru stilkarnir skáskornir með beittum hníf. Taka skal af öll blöð sem geta lent í vatninu, því þau rotna fljótt og hafa skaðleg áhrif á blómin.

Blóm geta verið aðeins byrjuð að visna ef langur tími líður áður en þau komast í vatn. Slík blóm má fá safaspennt með því að setja þau á kaf í vatn í vaski eða baðkari í 2 – 3 tíma áður en þau eru sett í vasa. Síðan eru stilkarnir skáskornir með beittum hníf og þau sett í vatn með endingarefnalausn. Visnuð blóm, sérstaklega afskorin blóm með trjákenndan stilk s.s. rósir, krysi eða gerberur er hægt að hressa við ef stilkendanum er stungið í heitt vatn í 60 sekúndur. Hlífa skal blóminu þannig að heit gufan leggi ekki upp blómið. Sama á við um blóm sem gefa frá sér mjólkursafa (þyrnikóróna, valmúi) en einnig má kljúfa upp í stilkinn um 2 cm og halda endanum við kertaljós eða kveikjara í 30 sekúndur. Gæta verður að hitinn berist ekki á blómin. Sum blóm hafa gott af því að skorið sé af stilkum þeirra ofan í vatni. Má þar nefna nellikur, kínaaster, einæran krysa, morgunfrú, rósir, ljónsmunna og skrautbaunir.